Keppnisreglur HRÍ

- Reglur Hjólreiðasambands Íslands (HRÍ) um Íslandsmeistaramót og bikarmót samþykktar á stjórnarfundi 8. maí 2018. -

 

1. kafli - Skipulag

1.1 Gildissvið
Reglur þessar gilda eingöngu um Íslandsmeistaramót og bikarmót sem haldin eru innan HRÍ.

1.2 Flokkar
Aldursskipting í flokka er sem hér segir: Elite: 23 ára og eldri. U23: 19, 20, 21 og 22 ára. Junior: 17 og 18 ára. U17: 15 og 16 ára. U15: 13 og 14 ára. U13: 11 og 12 ára. U11: 10 ára og yngri. Aldur miðast við fæðingarár en ekki afmælisdag. Undantekning frá því er í CX en þá miðast aldursárið við keppnisdagatalið, sbr. reglur UCI. Engir aðrir aldursflokkar eru í þessum keppnisflokkum á Íslandsmeistaramóti og bikarmóti.

Í Íslandsmeistaramótum og bikarmótum í fjallahjólreiðum og fjallabrun eru eftirtaldir flokkar: U15, U17, junior, U23 og elite í kvenna- og karlaflokki.

Í Íslandsmeistaramótum og bikarmótum í götuhjólreiðum, criterium, tímatöku og liðatímatöku eru eftirtaldir flokkar: Junior og elite í kvenna- og karlaflokki. Auk þess er U23 karlaflokkur í Íslandsmeistaramótinu í götuhjólreiðum. Sé haldið Íslandsmeistaramót eða bikarmót fyrir U11, U13, U15 og U17 ber keppnishaldara að halda mótið á lokaðri braut.

Í Íslandsmeistaramótum og bikarmótum í cyclocross eru eftirtaldir kvenna- og karlaflokkar: U15, U17, junior, U23 og elite. U23 og elite flokkar skulu ræstir á sama tíma og fara sömu vegalengd og sá keppandi sem kemur fyrstur þeirra í mark er sigurvegari.
Keppandi getur fært sig upp um flokk úr U23 í elite. Eftir að slík breyting hefur verið gerð getur keppandi ekki fært sig aftur niður um flokk í þeirri hjólreiðagrein sem breytingin átti sér stað á keppnistímabilinu. Óheimilt er að gera slíka breytingu eftir að skráningarfresti lýkur.

Ef keppandi í U23 ákveður að færa sig upp í Elite flokk þá telja UCI stig hans í Elite flokknum ekki í U23. Keppandi getur ekki unnið aðra flokka og fengið stig í þeim.

Í Íslandsmeistaramótum og bikarmótum í frjálsri aðferð er lágmarksaldur keppanda sjö ára og verður viðkomandi að hafa náð þeim aldri á keppnisdegi. Kvenna- og karlaflokkar eru youth (7-14 ára) og elite (15 og eldri). HRÍ getur í samráði við mótshaldara breytt flokkum eftir aldri eða getu. Heimilt er að hafa opinn flokk í frjálsri aðferð.

1.3 Keppnisgreinar innan HRÍ
A. Fjallahjólreiðar.
B. Götuhjólreiðar.
C. Criterium (hringkeppnir).
D. Tímataka.
E. Liðatímataka.
F. Fjallabrun.
G. Cyclo-Cross.
H. Frjáls aðferð (freestyle).


1.4 Stigakerfi fyrir bikarmót

Sæti   Stig  Sæti   Stig   Sæti   Stig
1.        50     11.     10      21.      1
2.        40     12.      9       22.      1
3.        32     13.      8       23.      1
4.        26     14.      7       24.      1
5.        22     15.      6       25.      1
6.        20     16.      5       26.      1
7.        18     17.      4       27.      1
8.        16     18.      3       28.      1
9.        14     19.      2       29.      1
10.      12     20.      1       30.      1

Í bikarmótum þarf að halda að lágmarki fjórar keppnir innan eftirfarandi hjólreiðagreina:
A. Fjallahjólreiða.
B. Götuhjólreiða.
C. Tímatöku.
D. Fjallabruns.
E. Cyclo-Cross.

Í bikarkeppnum gilda stig úr þremur stigahæstu keppnum viðkomandi hjólreiðamanns. Ef tveir hjólreiðamenn eru jafnir að stigum eftir þrjár keppnir mun sá hjólreiðamaður sem var ofar í síðustu keppni þeirra á milli verða ofar í lokastigatöflunni.
Ef af óviðráðanlegum orsökum einungis þrjár bikarkeppnir eru haldnar innan hjólreiðagreinar þá gilda allar þrjár keppnirnar til stiga.

1.5 Skilgreiningar
A. HRÍ: Meirihluti stjórnar HRÍ.
B. Keppnisdagatalsgjald: Gjald sem HRÍ er heimilt að innheimta af keppnishaldara fyrir keppni sem óskað er eftir að sett verði á keppnisdagatal HRÍ og er hvorki Íslandsmeistaramót né bikarmót.
C. Keppnishaldari: Viðurkenndur aðili af HRÍ, til dæmis aðildarfélag eða mótsstjórn.
D. Keppnishandbók: Ítarlegar upplýsingar um viðkomandi keppni þar sem fram kemur rástími, flokkar, leiðarlýsing og aðrar nauðsynlegar upplýsingar fyrir keppendur.
E. Mótsstjórn: Mótsstjóri, yfirdómari og keppnishaldari.
F. Yfirdómari: Eftirlitsaðili á vegum HRÍ.
G. Þátttakandi: Keppandi, áhorfandi, þjálfari, aðstoðarmaður keppanda, dómari, starfsmaður á vegum keppnishaldara, fjölmiðlafulltrúi o.þ.h.

2. kafli - Keppnir

2.1 Keppnisdagatal

2.1.1 Keppnisdagatal HRÍ er listi í tímaröð yfir hjólreiðakeppnir sem haldnar eru innan HRÍ og í samræmi við grein 1.2 og 1.3. Keppnisdagatali er skipt í vetrar- og sumardagatal.

2.1.2 Á keppnisdagatali koma fram keppnir í eftirfarandi greinum sem skilgreindar eru í 1.3.


2.1.3 Keppnisdagskrá skal útbúin og gefin út tvisvar á ári. Vetrarkeppnisdagskrá gildir frá 1. október til 31. mars og skal gefin út eigi síðar en 15. september ár hvert. Sumarkeppnisdagskrá gildir frá 1. apríl til 30. september og skal gefin út eigi síðar en 1. febrúar ár hvert.

2.1.4 Þegar keppnishaldari sækir um að setja keppni á keppnisdagatal HRÍ skulu að lágmarki eftirfarandi upplýsingar fylgja með:
a. Grein hjólreiðakeppni og fyrirkomulag.
b. Brautarlýsing þar sem fram kemur áætluð heildarvegalengd í hverjum flokki.
c. Verðlaun.

2.1.5 Öll Íslandsmeistaramót og bikarmót eru sett á keppnisdagatal HRÍ án endurgjalds. HRÍ er heimilt að innheimta gjald (keppnisdagatalsgjald) af keppnishaldara fyrir keppni sem óskað er eftir að sett verði á keppnisdagatal HRÍ og er hvorki Íslandsmeistaramót né bikarmót. Gjaldið skal greitt áður en keppnidagatal er gefið út formlega skv. 2.1.3. Sé keppnishaldari í skuld við HRÍ vegna fyrri keppna eða vegna annarra atriða getur HRÍ hafnað ósk keppnishaldara um að setja viðkomandi keppni á keppnisdagatalið. Þetta gildir einnig um nýja keppnishaldara sem HRÍ metur sem arftaka fyrri keppnishaldara sem ekki hafa gert upp fjárhagslegar skuldbindingar sínar gagnvart HRÍ.

2.1.6 Í undantekningartilvikum getur HRÍ heimilað smávægilegar breytingar á keppnisdagatali eftir að það er gefið út, til dæmis varðandi dagsetningu keppni, vegalengd, flokka eða ef keppni er aflýst.

2.1.7 Keppnishaldari skal auglýsa og kynna viðkomandi keppni með því nafni sem fram kemur á keppnisdagatali HRÍ. Í undantekningartilfellum getur HRÍ óskað eftir nafnabreytingu, til dæmis til að koma í veg fyrir misskilning eða nafnarugling við aðra keppni. Keppnishaldari skal forðast að auglýsa eða kynna keppni sína þannig að hún hafi aðra stöðu en hún hefur.

2.1.8 HRÍ gefur út reglur um dómara og starfsmenn móta.

2.2 Auglýsingar

2.3.1 Í samræmi reglugerð ÍSÍ um auglýsingar er keppanda, aðildarfélagi, liði eða keppnishaldara óheimilt að auglýsa eða tengja sig við vörumerki sem tengist tóbaki, áfengi eða klámi eða öðrum vörum eða vörumerkjum sem gætu skaðað ímynd HRÍ eða hjólreiða á Íslandi.
Brot á grein 2.3.1 getur leitt til þess að:
a. Keppanda sé meinuð þátttaka í keppni.
b. Félagi sé meinuð þátttaka í keppni.
c. Liði sé meinuð þátttaka í keppni.
d. Keppni sé fjarlægð af keppnisdagskrá HRÍ.

3. kafli - Keppnisskipulag

3.1 Keppnishaldari

3.1.1 Keppnishaldari skal viðurkenndur af HRÍ samkvæmt lögum þess.

3.1.2 Keppnishaldari ber einn ábyrgð á skipulagi og framkvæmd keppni í samræmi við reglur HRÍ gagnvart keppendum, þjálfurum, aðstoðarfólki, dómurum og áhorfendum.

3.1.3 Keppnishaldari skal tryggja eftir fremsta megni að ýtrasta öryggis sé gætt. Keppnishaldari skal tryggja að keppni fari fram við eins góðar aðstæður og hægt er fyrir alla sem að keppninni koma. Hér er meðal annars átt við keppendur, áhorfendur, þjálfara, aðstoðarfólk, dómara, starfsmenn, sjúkraþjónustu og björgunarsveitir.

3.1.4 Keppnishaldari skal tryggja að búnaður sé til staðar í endamarki sem getur úrskurðað um röð keppanda ef tveir eða fleiri keppendur koma á sama tíma í endamark.

3.1.5 Í samræmi við 7. kafla getur HRÍ skipað eftirlitsaðila með keppnum.

3.2 Leyfi til að skipuleggja Íslandsmeistaramót eða bikarmót

3.2.1 Skráning keppni á keppnisdagskrá HRÍ felur í sér að keppnishaldari hafi leyfi til að halda keppnina en felur ekki í sér að UCI eða HRÍ beri ábyrgð á framkvæmd og skipulagi keppninnar.

3.2.2 Keppnishaldari skal gefa út keppnishandbók um viðkomandi keppni. HRÍ þarf að samþykkja þær upplýsingar sem fram koma í keppnishandbók fyrir birtingu. Í því skyni leggur HRÍ fram eyðublað sem keppnishaldari þarf að fylla út og birta á vef hri.is að minnsta kosti 48 klst. áður en skráningarfrestur rennur út.

3.2.3 Með þátttöku í keppni getur keppnishaldari gert ráð fyrir því að keppandi hafi kynnt sér braut, dagskrá og aðrar leiðbeiningar eða sérreglur sem keppnishaldari hefur gefið út í keppnishandbók.

3.3 Hlutgengi og skráning

3.3.1 Íslandsmeistari
Rétt til þátttöku á Íslandsmeistaramótum hafa íslenskir ríkisborgarar sem eru fullgildir meðlimir í viðurkenndu hjólreiðafélagi eða hjólreiðadeild innan vébanda ÍSÍ (skráð í Felix). Sá sem öðlast íslenskan ríkisborgararétt frá og með 1. janúar á keppnisárinu getur keppt um Íslandsmeistaratitil.
Erlendur ríkisborgari öðlast ekki þátttökurétt á Íslandsmeistaramóti fyrr en eftir að hafa átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár, að því gefnu að viðkomandi sé fullgildur meðlimur í félagi innan ÍSÍ.

3.3.2 Bikarmeistari
Rétt til þátttöku á bikarmótum hafa fullgildir meðlimir í viðurkenndu hjólreiðafélagi eða hjólreiðadeild innan vébanda ÍSÍ (skráð í Felix).

3.3.3 HRÍ hefur heimild til að leyfa þátttöku erlendra hjólreiðamanna og aðila utan íþróttahreyfingarinnar í opnum mótum sem þannig eru auglýst.

3.3.4 HRÍ ákveður með hvaða hætti skráning í keppnir á keppnisdagdagatali fer fram. Almennt skal skráning fara fram á hri.is og vera lokið eigi síðar en 72 tímum fyrir fyrstu ræsingu í keppni. Öll keppnisgjöld skulu greidd við skráningu og er keppnishaldara heimilt að hafna greiðslu frá keppanda sem berst eftir auglýstan greiðslufrest. Keppnishaldari getur einnig meinað keppanda þátttöku hafi hann ekki greitt keppnisgjald eða vegna skulda keppanda frá fyrri keppnum.

3.3.5 Hjólreiðamenn mega aðeins keppa fyrir eitt félag á sama keppnistímabili sem skilgreint er í grein 2.1.3.

3.4 Keppnisbraut og öryggismál

3.4.1 Keppnishaldari (mótsstjórn) hefur alla yfirstjórn á keppnissvæðinu og þarf að tryggja nægilegt öryggi keppenda og áhorfenda í samráði við lögreglu og Vegagerðina, eftir því sem við á.

3.4.2 Keppnishaldari skal tryggja að keppnisbraut og keppnissvæði bjóði ekki upp á staði eða aðstæður þar sem öryggi keppenda, áhorfenda, dómara, starfsmanna og annarra er stefnt í sérstaka hættu. Yfirdómari getur skilgreint slíkar aðstæður.

3.4.3 HRÍ getur ekki undir nokkrum kringumstæðum orðið ábyrgt fyrir slysum sem geta orðið í keppni vegna hættu í braut eða mistaka við framkvæmd.

3.4.4 Keppendum ber að kynna sér keppnisbraut fyrir keppni. Keppendum er óheimilt að yfirgefa keppnisbraut nema vegna beinna fyrirmæla frá lögreglu eða keppnishaldara. Yfirgefi keppandi keppnisbraut vegna misskilnings, ábendingar frá utanaðkomandi aðila eða vegna lélegrar þekkingar á keppnisbraut hefur keppandi lokið keppni án tíma eða sætis og getur ekki gert neinar kröfur á keppnishaldara eða HRÍ um áætlaðan tíma eða sæti í viðkomandi keppni. Yfirgefi keppandi keppnisbraut getur hann einungis haldið áfram í keppninni með því að koma aftur á sama stað inn á braut og ljúka sömu vegalengd og aðrir keppendur í sama flokki.

3.4.5 Yfirgefi keppandi keppnisbraut tímabundið og komi hann inn á brautina á öðrum stað en hann yfirgaf hana og með þeim hætti að dómari meti að keppandi hafi brotið reglu samkvæmt grein 3.4.4 getur dómari áminnt keppanda eða vikið honum úr keppni. Yfirdómara er heimilt að veita keppanda áminningu eða banna frekari þátttöku keppanda í öðrum mótum teljist brot á reglu samkvæmt grein 3.4.4 alvarlegt.

3.4.6 Ef einn eða fleiri keppendur yfirgefa auglýsta keppnisbraut vegna fyrirmæla lögreglu eða keppnishaldara er ekki hægt að refsa þeim samkvæmt grein 3.4.5. Ef slík fyrirmæli gefa umræddum keppendum væntanlegt forskot á aðra keppendur skulu þeir hefja keppni aftur á sama stað miðað við aðra keppendur (sama sæti) eða bíða eftir fyrirmælum keppnishaldara ef hann er til staðar eða öðrum aðila á hans vegum. Ef allir keppendur eða hluti þeirra fara ranga leið skal keppnishaldari gera allt sem hans valdi stendur til að leiðbeina/koma keppendum aftur á réttan stað í keppnisbraut, þó ekki þannig að það valdi keppendum tjóni.

3.4.7 Fari keppni fram að hluta eða öllu leyti fram á malbikuðum vegi skal keppnishaldari skilgreina á hvaða hluta brautar er heimilt að hjóla á öllum veginum og hvenær einungis sé leyfilegt að hjóla á hægri vegarhelmingi. Fari keppandi yfir á vinstri vegarhelming þar sem það er óheimilt (út fyrir skilgreinda braut) gilda reglur samkvæmt greinum 3.4.4–3.4.6.

3.4.8 Í samráði við HRÍ getur keppnishaldari ákveðið að fresta keppni vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna. Keppnishaldari getur ekki frestað móti fyrr en 12 tímum fyrir ræsingu og ákvörðun um nýja tímasetningu skal tekin í samráði við HRÍ. Heimilt er að fresta keppni um klukkustund eða innan dags vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna.
Heimilt er að færa rásmark og/eða endamark ef það verður til þess að hægt sé að halda keppni sem annars þyrfti að fresta. Heimilt er að stytta keppni um allt að 20% ef það verður til þess að hægt sé að halda keppni sem annars þyrfti að fresta.

3.4.9 Keppnishaldari getur ákveðið að stöðva keppni vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna sem koma upp eftir að keppni hefst.

3.5 Úrslit og kærufrestur

3.5.1 Úrslit sem birtast jafnóðum í lifandi tímatöku eru ekki staðfest úrslit. Úrslit eru ekki staðfest fyrr en yfirdómari hefur afgreitt og/eða vísað frá þeim kærum sem berast innan 30 mínútna eftir að síðasti keppandi kemur í mark og birt úrslitin á hri.is.

3.5.2 Kærufrestur vegna atvika í keppni er 30 mínútum eftir að keppandi kemur í mark. Sé atvik kært hafa dómarar 60 mínútna frest frá því að síðasti keppandi kemur í mark til að ákveða hvort kæra verður tekin til greina. Verði kæra tekin til greina hafa dómarar frest til miðnættis næsta dag til að kveða upp úrskurð.

3.6 Kærur fyrir brot í keppni og meðferð þeirra.

3.6.1 Verði keppandi var við brot á reglu í keppni ber honum að tilkynna yfirdómara það innan 30 mínútna frá því að hann lauk keppni. Yfirdómari túlkar reglurnar, tekur við ábendingum, kvörtunum, kærum, dæmir tímavíti og ákveður brottvísun úr keppni.
Yfirdómara er þó heimilt að víkja frá þessari reglu meti hann aðstæður svo að þörf sé á að taka ábendingu til formlegrar umfjöllunar.
Þegar meint brot á keppnisreglum er kært þarf eftirfarandi að koma fram í kæru:
a. Hvaða keppnisregla er talin hafa verið brotin.
b. Hvar og hvenær hafi viðkomandi brot átt sér stað?
c. Hverjir hafi orðið uppvísir af broti?
d. Nákvæm lýsing á broti.
3.6.2 Úrskurður yfirdómara er bindandi. Úrskurð yfirdómara er unnt að kæra til dómstóls ÍSÍ.

3.7 Athugasemdir við úrslit

3.7.1 Geri keppandi athugasemd við tíma í staðfestum úrslitum ber keppnisstjóra að taka slíkar athugasemdir strax til umfjöllunar. Athugasemd verður að berast eigi síðar en einni viku eftir að staðfest úrslit voru birt á vef hri.is.

3.8 Lyfjaeftirlit

3.8.1 Lög ÍSÍ um lyfjamál gilda í öllum keppnum á keppnisdagatali HRÍ. Misnotkun lyfja samkvæmt lista WADA er bönnuð. HRÍ skuldbindur sig til að leyfa Lyfjaeftirliti Íslands og UCI að framkvæma lyfjapróf í keppni eða utan keppni á einstaklingum innan vébanda HRÍ.

4. kafli - Framkvæmd keppni

4.1 Framkoma og hegðun keppenda í hjólreiðakeppnum

4.1.1 Hjálmaskylda er í öllum keppnum á keppnisdagskrá HRÍ. Keppendur skulu klæðast viðeigandi hjólreiðafatnaði.

4.1.2 Keppendur sýna ávallt ýtrustu varúð í samræmi við aðstæður. Keppendum ber að virða keppnisreglur HRÍ og keppnishandbók keppnishaldara.

4.1.3 Keppendur skulu sýna af sér íþróttamannslega hegðun sem er hjólreiðaíþróttinni til framdráttar. Keppendur skulu ávallt koma heiðarlega og drengilega fram við aðra þátttakendur jafnt í keppni og utan keppni. Hótanir og niðrandi ummæli um aðra þátttakendur eru hvorki leyfð í keppni né utan keppni.

4.1.4 Keppnishaldari getur vikið keppanda úr keppni brjóti hann einhverja reglu í undirgreinum 4.1. Jafnframt getur stjórn HRÍ meinað keppanda þátttöku í móti hafi hann gerst uppvís að því að brjóta reglur í undirgreinum 4.1.

4.2 Rásmark og ræsing keppni

4.2.1 Í fjallahjólreiðum og fjallabruni skal rásnúmer vera á stýri og baki keppanda. Í götuhjólreiðum, tímatöku og criterum skulu vera tvö rásnúmer á baki keppanda og eitt á sætispípu. Í cyclocross skal rásnúmer vera á upphandlegg og baki keppanda.

4.2.2 Upphaf keppni skal gefið til kynna með skýrum hætti, svo sem með rásbyssuskoti, bjöllu, flautu eða rásfána.

4.2.3 Verði þjófstart getur ræsir annaðhvort endurtekið rásmerkið eða með skýrum hætti leyft keppni að halda áfram. Yfirdómari getur þá dæmt keppanda úr keppni.

4.2.4 Yfirdómari tryggir að keppendur á ráslínu uppfylli reglur þessar um klæðaburð, hjálmanotkun, notkun rásnúmera og keppnishjól.

4.3 Endamark

4.3.1 Endamark skal vera skýr svört lína sem er 4 cm breið á hvítum fleti sem er 72 cm breiður þannig að það séu 34 cm af hvítum fleti hvorum megin við svörtu línuna. Í fjallahjólakeppnum þarf hvíti flöturinn að vera 20cm breiður þannig að það séu 8 cm af hvítum fleti hvorum megin við svörtu línuna. Í tímatökukeppnum getur HRÍ leyft að tímatökumotta eða tímatökuvírar séu nægilega skýrt endamark ef notast er við rafræna tímatöku.

4.3.2 Keppandi telst kominn í mark á því augnabliki þegar fremsti hluti framhjóls ber við svarta endamarkslínu, sbr. grein 4.3.1. Hægt er að víkja frá reglu samkvæmt grein 4.3.1 um endamark ef notast er við sambærilegt endamark og aðferðir til að tryggja að röð keppenda sé skýr. Þær aðferðir verða að vera samþykktar af yfirdómara.

4.3.3 Í götuhjólakeppnum er þess krafist að myndbúnaður sem getur skorið úr um röð keppenda sé við endamark ásamt rafrænu tímatökukerfi.

4.3.4 Tímataka skal vera með rafrænum hætti, en handtímataka er leyfileg í þeim tilfellum þar sem hún skilar sömu nákvæmni eða vegna annarra aðstæðna sem krefjast þess, svo sem ef keppendur eru fáir. Í fjallabruni skal miðað við að nákvæmni búnaðar sé sem næst einum þúsundasta úr sekúndu. Í öðrum keppnum er miðað við að nákvæmni sé sem næst sekúndu eða betur. Nægilegt er að birta úrslit með sekúndu nákvæmni sé röð keppenda rétt með nákvæmari tíma.

4.3.5 Keppandi sem veldur truflun á keppni með því að hindra eða stofna í hættu öðrum keppanda, meðal annars í endaspretti, skal dæmast úr leik. Á síðustu 100 m í endaspretti skal keppandi undantekningalaust halda beinni línu og hafa a.m.k. aðra hönd á stýri. Við brot á þessari reglu skal dæma keppandann í síðasta sæti í þeim hópi sem hann var í. Hafi hegðunin ekki haft nein áhrif á úrslit sprettsins er dómara heimilt að láta áminningu nægja.

4.3.6 Þegar margir keppendur koma saman í mark hljóta þeir allir sama tímann (en mótsstjórn úrskurðar um röð þeirra). Annar tími verður skráður á keppanda eða keppendur í öðrum hópi sem koma í mark meira en sekúndu á eftir þeim keppanda sem kom síðast í mark (í hóp þar á undan).

4.3.7 HRÍ getur leiðrétt röð keppanda (leiðrétt úrslit lifandi tímatöku) innan viku frá birtingu þeirra komi eitthvað fram sem sýnir fram á að röð keppanda hafi verið röng.

4.3.8 HRÍ er skylt að upplýsa keppnishaldara og hlutaðeigandi keppendur um leiðréttingar á úrslitum samkvæmt grein 4.3.7. HRÍ ber að tryggja að úrlausn slíkra leiðréttinga sé skýr og leiði ekki af sér frekari leiðréttingar.

5. kafli - Búnaður

5.1 Almennt

5.1.1 Keppanda er skylt að tryggja að búnaður hans (hjólið með leyfilegum aukahlutum, hjálmur, föt og annar búnaður til notkunar í keppni) sé þannig hannaður og af þeim gæðum að hann valdi hvorki sér né öðrum keppendum hættu.

5.1.2 Keppanda er skylt að tryggja að búnaður hans í keppnum sé samþykktur af UCI og í samræmi við tilgreinda tæknistaðla og reglur hverju sinni á vefsvæði UCI. HRÍ getur veitt undanþágu frá kröfum UCI í ákveðnum mótum og skal það tilkynnt í auglýsingu með keppni eða á keppnisdagskrá.

5.1.3 HRÍ ber ekki ábyrgð á þeim afleiðingum sem kunna að leiða af vali keppanda á búnaði né heldur vegna galla í búnaði eða vali á búnaði sem ekki samræmist tæknistöðlum og kröfum UCI. Búnaður skal uppfylla gæða- og öryggisstaðla.

5.2 Tækniframfarir

5.2.1 Verði yfirdómari eða keppnishaldari þess var að keppandi mæti til keppni með búnað eða aðferð sem ekki hefur verið fjallað um eða samþykkt af UCI geta viðkomandi aðilar meinað keppanda þátttöku með slíkan búnað eða aðferð. Verði keppandi uppvís að því að nota slíkan búnað eða aðferð í keppni verður hann dæmdur umsvifalaust úr keppni. Þessa ákvörðun er ekki unnt að kæra til HRÍ eða dómstóls ÍSÍ. Komist keppandi upp með notkun slíks búnaðar án refsingar eða brottvísunar úr keppni getur HRÍ eða yfirdómari dæmt keppanda til brottvísunar eða refsingar eftir keppni.

5.2.2 Tækniframfarir eða tækninýjungar sem ekki hafa verið samþykktar af UCI eru ekki leyfðar. Hér er átt við hvað það sem snertir keppanda og keppnishjól, svo sem það sem keppandi ber með sér eða klæðist í keppni, hjálmur, hjól, breytingar á hjóli, búnaður á hjóli, samskiptatækni o.s.frv. Keppandi getur óskað eftir samþykki fyrir tækninýjung með umsókn ásamt nauðsynlegum gögnum til UCI.
Tækninýjung samkvæmt þessari grein telst ekki tækninýjung ef hún samræmist því sem fram kemur í tæknistöðlum og kröfum UCI.

6. kafli - Hjólið

6.1 Almennt

6.1.1 Keppnisreiðhjól er faratæki með tvö hjól (dekk á gjörð) sem hafa sama þvermál. Hægt er að beygja með framhjólinu. Hjólið er knúið áfram í gegnum pedala sem tengjast afturhjóli með keðju.

6.1.2 Keppnisreiðhjól og aukahlutir þeirra eru gerðir til notkunar fyrir hjólreiðar sem íþrótt. Notkunar búnaðar sem hannaður er sérstaklega til að bæta árangur er ekki leyfilegur nema í samræmi við 5. kafla.

6.1.3 Keppnishjól er hannað þannig að keppandi situr á hjólinu (oftast). Í þeirri stöðu hefur keppandi fætur á pedölum, hendur á stýri og situr á hnakk.

6.1.4 Keppnisreiðhjól hefur stýri sem er hannað þannig að hægt sé að hjóla og stjórna hjólinu á öruggan hátt við allar aðstæður.

6.1.5 Einungis er hægt að knýja hjólið áfram með hringlaga fótahreyfingum í gegnum pedala áföstum tannhjóli sem tengist tannhjóli á afturhjóli með keðju. Þessi hreyfing fer fram án rafmagns eða utanaðkomandi aðstoðar eða mótors.
Frekari smáatriði eru tilgreind í kafla III, hluta 2 (technical specification) í 1. part keppnisreglna UCI.

7. kafli – Gerðir hjólreiðakeppna

7.1 Götuhjólreiðar

7.1.1 Mótsstjórn í götuhjólakeppni skipa mótsstjóri, yfirdómari og dómari. Ef þörf krefur er unnt að skipa fleiri aðila í mótsstjórn. Yfirdómari fer með æðsta vald varðandi ákvarðanir sem teknar eru og varða keppnina, eins og nánar er tilgreint í þessum reglum.
7.1.2 Keppnisbraut á Íslandsmeistaramótum og bikarmótum skal vera á malbiki eða sambærilegum vegi.

7.1.3 Keppnishaldara ber að auglýsa og kynna vel staðsetningu á drykkjarstöðvum áður en keppni hefst. Í fjöldægramótum þarf að kynna staðsetningu á drykkjarstöðvum fyrir upphaf hverrar dagleiðar. Aðrar drykkjarstöðvar eru ekki leyfilegar nema mótsstjórn heimili.

7.1.4 Í götuhjólakeppnum þarf að vera keppnismiðstöð við rásmark þar sem keppendur staðfesta þátttöku, sækja keppnisnúmer og flögur og láta skoða búnað sinn reynist það nauðsynlegt samkvæmt ákvörðun mótsstjórnar. Einnig skal vera keppnismiðstöð til staðar við endamark (getur verið sama keppnismiðstöðin ef rásmark og endamark eru á sama stað) þar sem keppendur skila keppnisnúmeri og flögu. Keppnismiðstöð skal staðsett þannig að hún valdi ekki truflun á annarri umferð.

7.1.5 Í götuhjólakeppnum (nema þeim sem fara fram á hring sem er styttri en 5 km) skal áberandi merkt ökutæki keyra á undan keppendum.

7.1.6 Yfirdómari getur útvegað eigið ökutæki til notkunar við eftirlitsstörf í keppni í samráði við keppnishaldara og endurgreiðir HRÍ yfirdómara útlagðan kostnað vegna notkunar ökutækisins. Öll ökutæki sem notuð eru í keppni af mótsstjórn skulu merkt með skýrum hætti.

7.1.7 Ökutæki sem ekki er á vegum mótsstjórnar en tengist keppanda eða keppendum í keppni, þ.e. fylgdarbíll, þarf að fá sérstakt leyfi mótsstjórnar til að vera í skilgreindri keppnisbraut meðan á keppni stendur. Sé slíkt leyfi ekki til staðar og/eða mótsstjórn telur að slíkt ökutæki hafi truflandi áhrif á framgang keppni getur mótsstjórn vikið tengdum keppanda eða keppendum úr keppni.

7.1.8 Keppnishaldari í götuhjólakeppni skal útvega viðurkenndan aðila (einn eða fleiri) sem getur veitt fyrstu hjálp.

7.1.9 Keppnishaldari í götuhjólakeppni getur sett takmarkanir á ferðir ökutækis sem tengt er keppanda eða keppendum, þ.e. fylgdarbíls. Keppendur geta þegið þjónustu fylgdarbíls eða hlutlauss fylgdarbíls á vegum keppnishaldara. Öll samskipti milli keppanda og fylgdarbíls skulu fara fram þegar keppandi er aftast í sínum keppnishópi og keppandi er á hægri helmingi vegar. Bannað er að smyrja keðju keppanda á ferð. Aðstoðarfólk í fylgdarbíl má rétta drykkjarföng og aðra næringu úr bílnum á ferð, en er ekki heimilt að teygja sig eða halla sér út úr fylgdarbílnum á ferð. Ef fylgdarmótorhjól er leyft í keppni má það einungis bera aukagjarðir og ekkert annað.

7.1.10 Það er skylda keppanda að fylgja auglýstri og kynntri keppnisbraut. Ef keppandi yfirgefur brautina þarf hann að koma inn á hana aftur á sama stað. Nánar er kveðið á um þetta í greinum 3.4.4–3.4.7.

7.1.11 Keppendum í götuhjólakeppni ber að virða almennar umferðarreglur og gæta ýtrustu varúðar í sprettum eða þegar einn eða fleiri slíta sig frá meginhópnum. Fylgja skal þeim umferðarmerkjum sem eru á keppnisbraut. Hægt er að áminna eða vísa keppendum úr keppni sem hjóla ógætilega eða fylgja ekki þessum reglum. Ekki má hjóla yfir brotna miðlínu ef það þýðir að keppandi yfirgefi auglýsta keppnisbraut skv. 3.4.4.-3.4.7.

7.1.12 Keppandi í götuhjólakeppni sem fer fram á hring skal hætta í keppni ef hann verður hringaður af forystukeppenda nema að annað hafi verið skýrt auglýst og kynnt af yfirdómara. Keppandi skal tilkynna mótsstjórn brottfall sitt í keppnismiðstöð með skýrum hætti.

7.1.13 Ef keppanda, sem hefur verið hringaður, er leyfilegt að halda áfram keppni má hann ekki aðstoða forystukeppanda eða aðra sem hafa hringað hann með því að stjórna hraða eða kljúfa vind. Einungis keppendur á sama hring mega kljúfa vind hver fyrir annan og aldrei nota skjól eða kjölsog sem myndast vegna annarra farartækja.

7.1.14 Keppandi sem hjólar fram fyrir fremsta ökutæki á vegum mótsstjórnar getur átt það á hættu að verða vísað úr keppni.

7.1.15 Keppandi sem lendir í slysi meðan á keppni stendur þarf að tilkynna slysið (eða láta tilkynna það fyrir sig) til HRÍ innan þriggja daga. HRÍ hefur vald til að dæma keppanda úr keppni eða hindra frekari þátttöku í keppnum hans tímabundið hafi viðkomandi átt þátt í slysi með gáleysislegum hætti eða ef viðkomandi hefur átt þátt í meira en einu slysi á innan við 15 mánuðum.

7.2 Criterium (hringkeppnir)

7.2.1 HRÍ getur skilgreint hámarksfjölda keppenda sem mega ræsa í einu eða vera í brautinni á sama tíma. Slíkt ræðst af stærð og lögun brautar og brautarlokunum.

7.2.2 Í hringkeppnum þar sem hringurinn er 2,0 km eða styttri má keppandi sem lendir í óhappi, slysi, hjólreiðabilun eða sprengir dekk sleppa einum hring og koma inn í keppni aftur á sama stað og hann var þegar atvikið átti sér stað og að fengnu leyfi yfirdómara. Slíkt er þó ekki leyfilegt ef innan við 6 hringir eru eftir af keppninni. Keppandi sem fær slíkt leyfi telst vera á sama hring og þeir keppendur sem hann hjólar með þó hann hafi hjólað einum hring styttra. Sá keppandi getur því keppt til sigurs í endaspretti. Einungis er leyfilegt að missa einn hring úr hverri keppni vegna áðurtalinna atvika nema yfirdómari ákveði annað. Í sérstökum veðurskilyrðum sem geta haft áhrif á yfirborð keppnisbrautar er yfirdómara heimilt að veita áðurnefndar undanþágur á brautum sem eru 3,0 km eða styttri (í stað 2,0 km).

7.2.3 Ef keppandi er hringaður í keppni er það á hans ábyrgð að hætta keppni og tilkynna mótsstjórn um brottfall sitt við endamark.

7.3 Fjöldægrakeppnir

7.3.1 Lendi keppandi eða keppendur í atviki á síðustu þremur kílómetrum dagleiðar, svo sem óhappi, slysi, hjólreiðabilun eða sprungnu dekki, má skrá sama tíma á viðkomandi og sá keppandi hlaut sem var síðastur í mark í þeim hópi sem viðkomandi var í þegar atvikið átti sér stað að því gefnu að viðkomandi keppandi klári samt dagleið innan tímamarka.

7.3.2 Þegar margir keppendur koma saman í mark hljóta þeir allir sama tímann (en mótsstjórn úrskurðar um röð þeirra). Annar tími verður skráður á keppanda eða keppendur í öðrum hópi sem koma í mark meira en sekúndu á eftir þeim keppanda sem kom síðastur í mark (í hópi þar á undan).

7.3.3 Endanleg úrslit einstaklinga og röðun í sæti er reiknuð sem samanlagður heildartími hvers keppanda úr öllum dagleiðum að viðbættum tímavítum ef þau eiga við eða að frádregnum tímabónusum ef þeir eiga við.

7.3.4 Endanleg úrslit liða/félaga og röðun er ákvörðuð með eftirfarandi hætti: Fyrir dagleiðir og heildarúrslit gilda bestu tímar þriggja efstu keppenda hvers liðs/félags fyrir hverja dagleið. Heildartími liðs fæst þannig með því að leggja saman bestu tíma þeirra þriggja keppenda sem ná bestum tíma fyrir sitt lið/félag í hverri dagleið.

7.3.5 Samkvæmt grein 7.3.3 telst einstaklingssigurvegari fjöldægrakeppni vera sá keppandi sem hefur stysta samanlagðan heildartíma. Ef tveir eða fleiri keppendur hafa sama heildartíma að teknu tilliti til refsinga og tímabónusa skal taka tillit til úrslita í hverri dagleið (röðun í sæti) og sá keppandi sem hefur læstu samanlögðu töluna þegar sætisröð er lögð saman telst sigurvegari. Ef tveir eða fleiri keppendur eru ennþá jafnir eftir þann útreikning skal innbyrðis röðun þeirra í síðustu dagleið gilda sem lokaúrslit.

7.3.6 Samkvæmt grein 7.3.4 telst liða-/félagssigurvegari vera það lið/félag sem hefur lægsta heildartíma. Ef tvö eða fleiri lið/félög enda með sama tíma skulu endanleg úrslit ákvörðuð eftir fjölda dagleiðasigra sem hvert lið/félag hefur hlotið og því næst fjölda skipta sem viðkomandi lið/félag náði 2. sæti ef fjöldi dagleiðasigra er jafn o.s.frv.

7.4 Tímataka

7.4.1 Keppandi sem er ekki er tilbúinn á ráslínu þegar hann á að ræsa samkvæmt fyrirfram útgefnum tímasettum ráslista skal tilkynna mótsstjóra þegar hann er tilbúinn og kominn í rásröð eða á ráslínu. Mótsstjóri getur ákveðið hvenær sá keppandi fær að hefja keppni. Sá keppandi tapar einungis þeim tíma frá því að hann átti að hefja keppni og þar til hann tilkynnir mótsstjóra að hann sé tilbúinn að hefja keppni og kominn á ráslínu eða í rásröð. Keppandi fær aldrei að endurræsa í tímatökukeppni.

7.4.2 Keppendur skulu ræstir út með a.m.k. mínútu millibili. Undantekning er frá þessu vegna tímatökukeppna sem eru styttri en 10 km og hafa ekki sama rásmark og endamark og keppendur munu ekki hjóla í gagnstæða átt. Rásröð skal miðast við úrslit síðustu sambærilegu tímatökukeppni, þ.e. brautarlengd og brautarstæði. Keppnishaldara er frjálst að raða keppendum sem ekki hafa tíma úr tímakeppni. Verðlaunahafar úr síðustu sambærilegu tímatökukeppni verða þó alltaf ræstir í þeirri röð í síðustu þremur ræsingunum. Í ræsingu má halda keppendum og skulu allir keppendur fá slíka aðstoð frá starfsmanni á vegum keppnishaldara. Ekki má ýta keppendum af stað.

7.4.3 Keppendur hjóla einir í tímatökukeppni og án utanaðkomandi aðstoðar. Keppendum er óheimilt að hjóla með öðrum hjólreiðamönnum eða nýta sér skjól eða kjölsog af öðrum hjólreiðamönnum eða ökutækjum sem kunna að vera í keppnisbraut. Ef keppandi nær öðrum keppanda sem ræstur var á undan þarf hraðari keppandinn að taka fram úr þeim hægari með því að vera a.m.k. 1,5 metra til hliðar við hann og án þess að nýta sér skjól af honum. Það er skylda hægari keppandans að vera kominn a.m.k. 25 metra fyrir aftan þann hraðari innan næstu 1.000 metra. Óheimilt er fyrir hægari keppanda að reyna að taka fram úr þeim hraðari nema hafa fyrst farið a.m.k. 25 metra fyrir aftan þann hraðari.

7.4.4 Keppendur mega ekki þiggja fylgd eða hvatningu frá aðila í ökutæki á ferð. Mótsstjórn getur ákveðið í sérstökum tilfellum að leyfa einum fylgdarbíl að fylgja hverjum keppanda.

7.4.5 Fulltrúi frá HRÍ skal vera í öllum leyfilegum fylgdarbílum og skal ökutækið alltaf vera a.m.k. 20 metrum fyrir aftan viðkomandi keppanda. Þurfi keppandi aðstoð úr fylgdarbíl verður keppandi að stöðva áður en fylgdarbíll má nálgast keppanda.

7.4.6 Sömu reglur HRÍ varðandi götuhjólakeppnir gilda einnig í tímatökukeppnum auk greina 7.4.1 - 7.4.5.

7.5 Liðatímataka

7.5.1 Reglur undirgreina 7.4 fyrir tímatöku gilda einnig í liðatímatöku.

7.5.2 Lið geta verið samsett af tveimur, þremur eða fjórum keppendum en í hverri keppni skulu þó alltaf vera jafn margir liðsmenn sem telja til heildartíma. Lið skulu ræst út með a.m.k. mínútu millibili ef tveir eru í liði en annars með a.m.k. tveggja mínútna millibili.

7.5.3 Lið sem ekki eru fullmönnuð mega hefja keppni en geta ekki keppt um verðlaun. Undantekning er þegar þrír liðsmenn hefja keppni í fjögurra manna liðakeppni.

7.5.4 Lið geta skráð einn varamann í þriggja manna lið og tvo varamenn í fjögurra manna lið. Slíkir varamenn þurfa að vera skráðir á nafnalista þegar lið er skráð til keppni.

7.5.5 Liðsmönnum er óheimilt að nýta skjól eða kjölsog af öðrum keppendum eða farartækjum í brautinni. Ef lið fer fram úr hægfara liði er hægara liðinu skylt að vera komið a.m.k. 25 metrum fyrir aftan hraðara liðið á næstu 1.000 metrum. Hraðara liðið þarf að taka fram úr til hliðar við hægara liðið með ákjósanlegu bili án þess að hætta skapist.

7.5.6 Öllum liðsmönnum í hverju liði er skylt að fylgjast með því sem er fyrir framan liðið og á ábyrgð allra liðsmanna að fylgja umferðarreglum, umferðarmerkjum og tilmælum lögreglu.

7.5.7 Skráður tími liðs er sá tími þegar síðasti liðsmaður kemur í mark nema í þeim tilfellum þegar fjögurra manna lið keppa. Þá gildir tími þriðja liðsmanns í mark sem skráður lokatími liðsins. Verðlaun hljóta allir meðlimir liðs sem hófu keppni á ráslínu og hljóta þeir allir sömu verðlaun.

7.5.8 Lið mega ekki þiggja fylgd eða hvatningu frá aðila í ökutæki á ferð. Mótsstjórn getur ákveðið í sérstökum tilfellum að leyfa einum fylgdarbíl að fylgja hverju liði. Sá fylgdarbíll verður að vera merktur liðinu bæði að framan og aftan. Fylgdarbíll þarf að vera a.m.k. 20 metrum fyrir aftan aftasta liðsmann viðkomandi liðs eða þriðja liðsmanns í fjögurra manna liði ef fjórði liðsmaður hefur hætt keppni.

7.5.9 Liðsmenn geta aðeins þegið búnað, drykki eða mat frá öðrum liðsmönnum sama liðs.

7.5.10 Liðsmönnum er óheimilt að ýta hver öðrum.

7.6 Fjallahjólreiðar

7.6.1 Auglýst braut verður að vera 100% hjólanleg óháð undirlagi og veðuraðstæðum. HRÍ getur leyft keppni á brautum þar sem keppendur þurfa að fara af hjóli í stutta stund til að komast braut.

7.6.2 Brautarskoðun (fótgangandi eða hjólandi) verður að vera auglýst og fara fram a.m.k. fimm dögum fyrir keppni.

7.6.3 Hægt er að takmarka neyslu matar við ákveðin matarsvæði. Hægt er að skilgreina leyfileg útskipti gleraugna á sömu svæðum.

7.6.4 Hvert matarsvæði skal staðsett á flatlendi eða í halla upp í mót þar sem hraði er lítill og nægt rými er fyrir eftirfarandi:
a. aðstoðarfólk viðkomandi keppanda skal merkt á áberandi hátt.
b. Hlutlaust drykkjarsvæði á vegum keppnishaldara.

7.6.5 Hægt er að leyfa aðstoð við keppendur í keppni. Sú aðstoð takmarkast við viðgerðir á hjóli og búnaði þess án þess þó að skipta um hjólastell. Ekki er heldur leyfilegt að skipta um hjól í keppni og keppandi verður að klára keppni með sama keppnisnúmer á stýri og hann hóf keppni með.

7.6.6 Ef aðstoð við keppendur er leyfð í keppni skal sú aðstoð fara fram á sérstöku skilgreindu viðgerðarsvæði sem tekur við af matarsvæði. Einungis eitt slíkt viðgerðarsvæði er leyfilegt á hring í keppnisbraut.

7.6.7 Varabúnaður og áhöld til viðgerða verða að vera staðsett á viðgerðarsvæði. Hver keppandi má gera sjálfur við hjól eða þiggja aðstoð við viðgerðir innan viðgerðarsvæðis.

7.6.8 Keppendum er heimilt að hafa á sér varahluti og áhöld til viðgerðar sé það tryggt að slík áhöld eða hlutir valdi keppanda eða öðrum keppendum ekki hættu.

7.7 Cyclo-Cross

7.7.1 Brautin skal vera lokaður eða vel afmarkaður hringur sem er að lágmarki 1,0 km og að hámarki 5,0 km og a.m.k. 90% af braut þarf að vera hjólanleg.

7.7.2 Brautin skal innihalda vegi, gras og stíga til skiptis þannig að tryggt sé að keppnishraði breytist í hverjum hring og til að tryggja að keppendur fái einhvern tíma til að jafna sig eftir mjög erfiða kafla í brautinni.

7.7.3 Braut skal ávallt vera vel merkt og afmörkuð. Brautarverðir gæta brautar. Banna skal notkun hluta í braut sem geta verið hættulegir keppendum, svo sem víra, málmhluta og málmstaura. Braut má ekki heldur innihalda aðra hluti sem eru hættulegir keppendum.

7.7.4 Ef viðarplankar eru notaðir sem hindrun í braut þarf að staðsetja þá með 4 til 6 metra bili. Viðarplankar þurfa að vera heilir og ná sem hindrun yfir alla brautina. Hámarkshæð þeirra er 40 cm. Notkun planka úr málmi eru óheimil.

7.7.5 Braut skal vera tilbúin og uppsett a.m.k. 60 mínútum fyrir keppni þannig að keppendur geti skoðað endanlega braut tímanlega og æft sig í henni.

7.7.6 Ef viðgerðaraðstoð er leyfð í keppni skal hún fara fram á sérstöku skilgreindu viðgerðarsvæði. Einungis eitt slíkt svæði er leyfilegt á hring.

7.7.7 Viðgerðaraðstoð og hjólaútskipti eru einungis leyfð á skilgreindu viðgerðarsvæði.

7.8 Fjallabrun

7.8.1 Í fjallabruni er annaðhvort keppt í einni umferð eða tvöfaldri umferð.

7.8.2 Keppni með einfaldri umferð er annaðhvort:
a. útsláttarkeppni með undanúrslitum og úrslitum þar sem hraðasti tími gildir til sigurs, eða
b. forkeppni með einfaldri umferð. Tímar keppenda í forkeppni ráða röðun þeirra í lokakeppni með einfaldri umferð og tímar úr lokakeppni gilda (ekki úr forkeppni).

7.8.3 Í keppni með tvöfaldri umferð gildir betri tími keppenda sem lokatími.

7.8.4 Óheimilt er að klæðast götuhjólafatnaði í fjallabruni. Keppendur skulu vera með lokaðan hjálm (full face) með skyggni, bakbrynju og hnéhlífar. Mælst er til þess að keppendur noti frekari hlífðarbúnað, svo sem axlarhlíf með stífu yfirborði, lærapúða, sköflungapúða og fingravettlinga.

7.8.5 Keppnishaldari í fjallabruni skal útvega viðurkenndan aðila (einn eða fleiri) sem getur veitt fyrstu hjálp.

7.8.6 Brautarskoðun (fótgangandi eða hjólandi) verður að vera auglýst og fara fram a.m.k. fimm dögum fyrir keppni.

Síðasta uppfærsla: 9. maí 2018 kl: 09:31